top of page

Er markþjálfun fyrir afreksíþróttafólk?

Greinina skrifaði Unnur María markþjálfi


Markþjálfun er talin eiga erindi við og geta nýst flestum starfsgreinum á einn eða annan hátt, og getur því komið að gagni og góðum notum meðal breiðs hóps fólks.






















Markþjálfun er ekki aðeins fyrir þá sem vilja auka vöxt og árangur í lífi og starfi, og taka skref í átt að markmiðum sínum og framtíðarsýn, heldur einnig þá sem þegar hafa náð “toppnum” eða verulega langt á sínu sviði, því aðal áskorunin felst í því að halda sér við efnið eftir að takmarkinu hefur verið náð.

Við erum seint eða aldrei komin á þann stað þar sem við getum hallað okkur aftur í stólnum og hætt að vinna í okkur sjálfum. Þá eigum við það á hættu að sofna á verðinum og gleyma því að allt sem við veitum athygli vex og dafnar.

Galdurinn liggur því í meðvitundinni og því að halda áfram að sá fræjum og vökva þau. Markþjálfun er viðvarandi samstarf og þróunarferli sem eykur vitund og ábyrgð fólks gagnvart eigin markmiðum. Aðferðin veitir mikilvæga umgjörð, aðhald og stuðning svo fólk geti haldið áfram að setja sér krefjandi markmið og ná árangri eftir að á toppinn er komið. Það er því bæði trú mín og reynsla að ólíkustu hópar geti grætt á markþjálfun, einnig afreks- og atvinnufólk í íþróttum sem hefur þegar náð langt á sínu sviði. Einn af þeim þáttum sem talinn er ráða úrslitum þegar kemur að árangri í íþróttum er að markmið séu gildismiðuð og stefnan skýr, og að unnið sé að markmiðunum bæði kerfisbundið og að heilum hug.


Markþjálfun er upprunalega sprottin út frá íþróttasálfræði. Því liggur beinast við að aðferðafræði markþjálfunnar sé notuð í vinnu með íþróttafólki. Markþjálfun er þó frábrugðin þeirri þjálfun sem íþróttamaðurinn þekkir frá hendi íþróttaþjálfarans, þó einkum að því leyti að íþróttaþjálfarinn er sérfræðingur eða kennari sem hefur sérhæfða þekkingu í tiltekinni íþrótt, á meðan markþjálfinn vinnur með einstaklingum á talsvert breiðara sviði. Í markþjálfun er það marksækjandinn sem er sérfræðingurinn í sambandinu, enda þekkir hann sitt eigið líf best, á meðan það kemur í hlut markþjálfans að nota aðferðir markþjálfunnar til að búa til jarðveg það sem persónulegur vöxtur getur átt sér stað. Í markþjálfun er komið inn á helstu svið lífsins og þau mörgu og mismunandi hlutverk sem við leikum í lífinu. Markþjálfi getur því unnið með íþróttamanni á sviðum sem tengjast íþróttinni ekki beint, en geta þó haft veruleg áhrif á getu hans og afköst. Venjur okkar eru samofnar og því getur t.d. svefnleysi haft áhrif á getu leikmanns í leik, rétt eins og frammistaða leikmanns í leik getur haft áhrif á svefn hans. Það getur því verið vandasamt að gera sér grein fyrir því hvort sé hænan og hvort eggið. Markþjálfun getur hjálpað fólki að finna betra jafnvægi milli ólíkra lífsþátta, t.d. milli fjölskyldu og frama.


Markþjálfun er frábrugðin öðrum aðferðum og eru það einkum þrír þættir sem gera hana svo sérstaka. Í einstaklingsmarkþjálfun mætast tveir jafningjar sem vinna saman á jafningjagrundvelli. Gagnkvæm virðing og traust skipta miklu máli ef árangur á að nást. Markþjálfi er bundinn trúnaði og því er innihald samtala trúnaðarmál. Þriðji þátturinn sem gerir markþjálfun sérstaka er það hlutleysi sem aðferðin býður upp á. Þegar kemur að markmiðasetningu er endurgjöf mikilvægur þáttur og þá getur það skipt sköpum að hún komi frá hlutlausum aðila sem hefur ekki neinum persónulegum hagsmunum að gæta. Við könnumst eflaust flest við það að fá ráðleggingar frá ástvinum sem vilja okkur það besta, en hafa þó öll ákveðnum hagsmunum að gæta gagnvart okkur og bjóða því ekki upp á hlutlausa sýn á hlutina. Í markmiðavinnu er einnig mikilvægt að hafa góða yfirsýn yfir heildarmyndina og þá getur verið verðmætt að fá önnur augu lánuð, því betur sjá augu en auga.


Skuli íþróttafólk vera að velta því fyrir sér hvort markþjálfun geti komið þeim að gagni er ágætt að komi fram að það að sækja sér markþjálfun jafngildir því ekki að eitthvað sé að eða að viðkomandi þurfi á hjálp að halda. Reyndar getur því verið öfugu farið og verið til marks um metnað og vilja til að gera enn betur. Að mínu mati, þótt ég sé eflaust heldur hlutdræg í þessu tiltekna máli, er það frekar til marks um hugrekki en veikleika að sækja sér þá aðstoð sem til boða stendur til að ná meiri árangri og komast nær draumum sínum. Það hefur sýnt sig að við erum mun líklegri til að standa okkur þegar við vitum að fylgst er með okkur, og einhverra hluta vegna eigum við auðveldara með að svíkja okkur sjálf en aðra – eins og t.d. markþjálfann okkar. En þegar öllu er á botninn hvolft skiptir það ekki sköpum hvort við stóðum okkur fyrir markþjálfann okkar eða okkur sjálf svo lengi sem takmarkinu var náð.



81 views

Related Posts

See All
bottom of page