top of page
ICF_woman_armsx.jpg

ICF MARKÞJÁLFUN

Svona starfa ICF markþjálfar

Markþjálfar sem hlotið hafa ICF þjálfun leggja sig fram um að virkja sköpunargleði einstaklinga. Þeir hvetja þá til að skoða málin frá nýju sjónarhorni, hreyfa við þeim og aðstoða þá við að finna farveg til að koma raunverulegum markmiðum í framkvæmd. Í markþjálfasamtali er litið svo á að hver einstaklingur sé sérfræðingur í sínu lífi og í samvinnu við hæfan markþjálfa geti allir komist í snertingu við sinn innri drifkraft og náð árangri. 

Í markþjálfasamtali beitir markþjálfinn virkri hlustun og spyr opinna spurninga til að ná fram því sem býr að baki þess sem einstaklingurinn tjáir. Hann speglar viðbrögðin til baka og hefur bein tjáskipti um það sem hann verður áskynja í samtalinu, allt til þess að ýta undir sjálfsþekkingu og lærdóm sem fært getur viðkomandi nær því sem hugur hans og hjarta stendur til.

 

Það sem faglegur ICF markþjálfi gerir hinsvegar ekki er að dæma um, gefa ráð eða stýra útkomunni þar sem slík inngrip eru til þess fallin að hamla sköpunarferlinu sem á sér annars stað innra með einstaklingnum sjálfum og er helsti hvatinn að árangri. Í raun þarf framúrskarandi markþjálfi ekki að hafa neina sérþekkingu á viðfangsefni hvers og eins. Hann þarf hinsvegar að vera sérfræðingur í að hýsa samtalið á faglegan og framfaramiðaðan hátt.

 • Þroskandi og skemmtilegt lærdómsferli sem miðar að því að aðstoða einstaklinga við að gera sínar eigin mikilvægu uppgötvanir, setja sér markmið og finna eigin leiðir til að fylgja þeim eftir.

 • Samtalstækni sem gengur út frá því að allir séu skapandi og að stærstu svörin sem leitað er að megi að finna hjá einstaklingunum sjálfum.
   

 • Styðjandi og uppbyggjandi samstarf, byggt á gagnkvæmu trausti og trúnaðarsambandi milli markþjálfa og marksækjenda þar sem unnið er að framförum í nútíð og framtíð.
   

 • Krefjandi og skapandi ferli sem ýtir undir sjálfsþekkingu, hvar gildi eru skoðuð og unnið er út frá styrkleikum og áhugahvöt hvers og eins til að hámarka mælanlegan árangur.
   

 • Aðferðafræði sem hvetur marksækjendur til að mæta sínum áskorunum með opnum huga, stíga út fyrir þægindahringinn og koma auga á möguleika í hverjum aðstæðum.

Markþjálfun á rætur að rekja til fræðigreina á sviði jákvæðrar sálfræði og þjálfunar. Með markþjálfun á ICF grunni gefst einstaklingum tækifæri til að skoða sjálfa sig, störf sín og hegðun í fullum trúnaðarsamskiptum við markþjálfa sem hefur hlotið faglega þjálfun í gegnum viðurkennt ICF nám. Um framfaradrifna samtalstækni er að ræða þar sem einstaklingurinn velur umræðuefnið en markþjálfinn heldur utan um samtalið. 

Concrete Wall

Vottaðir ICF markþjálfar

Þeir markþjálfar sem lokið hafa viðurkenndri þjálfun í gegnum ICF vottað nám, hafa til viðbótar staðist hæfismat og hlotið gæðavottun á færni sína og fagleg vinnubrögð frá alþjóðasamtökum ICF, eru auðkenndir ACC, PCC eða MCC* markþjálfar. Munur á milli auðkennanna þriggja liggur í námslengd og reynslu byggða á fjölda samtala sem býr að baki hverju vottunarstigi. Samfara því felst sá stigsmunur vottunar í viðurkenningu á færni markþjálfans til að dýpka markþjálfasamtöl með áherslu á einstaklinginn sjálfan, umfram eða samhliða viðfangsefni hans.

*Associate Certified Coach (ACC). Professional Certified Coach (PCC),

Master Certified Coach (MCC).

ICF_ICEchapter_coach.jpg
Life coaching

Viðurkennd aðferðafræði

Markþjálfun hefur notið vaxandi vinsælda um allan heim og er viðurkennd aðferðafræði til að auka verðmæti og flýta framgangi á hvaða vettvangi sem er. Ástæðan er einfaldlega sú að hún skilar árangri. Þeir sem notið hafa faglegrar markþjálfunar, hvort sem er í tengslum við störf sín eða í einkalífi, segja hana framúrskarandi tæki til að ná markmiðum, breyta vanahegðun og hugarfari eða einfaldlega til að hugsa lífið upp á nýtt.

Aukinn árangur

Markþjálfun bætir samskipti og aðstoðar einstaklinga við að ná betri árangri í lífi og starfi. Markþjálfinn skorar á, veitir aðstoð við að fá skýra sýn á tilganginn, víkka sjóndeildarhringinn, forgangsraða og koma auga á lausnir. Fjölmörg fyrirtæki hafa náð mælanlegum árangri með markþjálfun sem hefur jákvæð áhrif á fyrirtækjamenningu og ýtir undir helgun í starfi.

Meeting

Spurningar og svör um markþjálfun

bottom of page