top of page

Vorbréf til félagsmanna

Kæru markþjálfar 


Ýmislegt hefur drifið á daga stjórnar ICF á Íslandi undanfarið og hafa breytingar orðið á mönnun hennar. Finni Aðalheiðarson sagði sig frá stjórnarstörfum í júní 2023 og Birna Sif Kristínardóttir fór í veikindaleyfi í haust. Lella Erludóttir sagði sig tímabundið frá stjórnarsetu frá desember til febrúar og Ásta Guðrún Guðbandsdóttir hefur sagt sig frá formennsku og stigið út úr stjórn. Við þökkum þeim sem hafa horfið frá stjórnarstörfum innilega fyrir samstarfið og óskum þeim gæfu og heilla.  


Þrátt fyrir breytingar stendur eftir styrk sex manna stjórn sem er staðráðin í því að sigla skipinu í höfn af metnaði og í gleði. Arnór Már Másson hefur tekið við formennsku, Einar Sveinn Ólafsson varaformennsku, Rakel Baldursdóttir er gjaldkeri, Lella Erludóttir ritari, Alma J. Árnadóttir kynningarfulltrúi og Laufey Haraldsdóttir meðstjórnandi. Eining og samhugur ríkir meðal stjórnarmeðlima um áframhaldandi stjórnarsamstarf og verkefnin sem framundan eru. 
Markþjálfunardagurinn var haldinn í fyrra með pompi og prakt. Einnig var boðið upp á vinnustofu fyrir markþjálfa. Misjafnar raddir hafa heyrst meðal félagsmanna og þátttakenda um tilgang og innihald Markþjálfunardagsins almennt. Sumir eru hæstánægðir með daginn og aðrir kalla eftir meiri skýrleika varðandi tilgang og innihald hans. Ekki hefur náðst eining eða samstaða innan stjórnar um það hvernig best sé hægt að mæta þörfum félagsmanna og aðila vinnumarkaðarins varðandi Markþjálfunardaginn. Við fögnum ólíkum skoðunum og þetta hefur orðið til þess að líflegar umræður fóru af stað og væntanlega endurspeglar það að einhverju leyti ytra umhverfið okkar. Það varð því ekki haldinn Markþjálfunardagur 2024 en hann verður vonandi haldinn glæsilegur að ári.  


Mánaðarlegir viðburðir framundan bera með sér ferskan andblæ og fítónskraft nýliða sem er heldur betur lyftistöng fyrir fagið. Þau Einar Sveinn, Valdís Hrönn Berg og Lella hafa veg og vanda að fjórum viðburðum sem eru sérstaklega sniðnir að þeim sem eru að hefja göngu sína í faginu en eru einnig ætlaðir þeim sem lengra eru komin, ekki síður sem stuðningur. Hér eru nánari upplýsingar um nýliðaviðburðina: https://www.icficeland.is/vidburdir. 


Viðburður siðanefndar með David Lynch PCC og Þóru Magneu, nefndarfulltrúum okkar verður þann 14. mars í Opna Háskólanum HR frá kl. 17.00-19.00. Sem fyrr má gera ráð fyrir lærdómsríkum viðburði. Fyrri viðburðir siðanefndar í formi „Case Study" hafa verið vel sóttir enda mikill faglegur lærdómur fólginn í því að máta siðareglur markþjálfa inn í hvers kyns aðstæður: https://www.icficeland.is/events/vidburdur-sidanefndar


Aðalfundur ICF Iceland verður haldinn þann 6. maí 2024 kl. 19.00 í Opna Háskólanum í HR. Það er áríðandi að félagsmenn fjölmenni á aðalfundinn til þess að tryggja stöðugleika, gæði og framtíð félagsins. Arnór, Alma og Rakel ljúka sínum störfum í stjórninni eftir tveggja ára stjórnarsetu. Það er mikilvægt að félagsmenn stígi fram og bjóði sig fram í stjórnina. Lella hefur ákveðið að gefa kost á sér í stöðu formanns í komandi stjórn en við óskum eindregið eftir mótframboðum. Eitt af fyrstu hlutverkum nýs formanns verður að fara á fund EMEA í Aþenu í lok maí. Einnig hvetjum við sem flesta félagsmenn til að bjóða sig fram í aðrar stöður og verkefni innan stjórnarinnar. Við biðjum áhugasama félaga að senda inn framboð og upplýsingar sem fyrst á icf@icficeland.is.  


International Coaching Week (ICW) er sannkölluð veisla þar sem fagnað verður árangri og áhrifum markþjálfunar á heimsvísu. International Coaching Week (ICW) verður haldin 13.-19. maí 2024. Við hvetjum félagsmenn til að taka þátt og setja sitt mark á vikuna. Fjölmargir viðburðir verða í boði. Nánari upplýsingar má finna hér: https://coachingfederation.org/events/international-coaching-week 


Endurnýjun og vottun fer fram hjá ICF Global. Hægt er að taka próf fyrir ACC, PCC, og MCC vottanir á netinu en fyrir þau sem hentar betur að taka prófið á annan hátt þá er ICF í samstarfi við  Pearson VUE og er Promennt vottuð prófamiðstöð fyrir þá hér á landi. Prófadagar eru á þriðjudögum og fimmtudögum frá kl. 10.00-16.00. Til að nýta þennan möguleika þarf að skrá sig í prófið hjá ICF Global og velja að taka það hjá Promennt. Upplýsingar um Promennt er að finna hér:


Í desember sl. samþykkti ICF Credentials and Standards Board að aðilar sem hyggjast uppfæra sig um vottunarstig innan árs frá því að vottun var tekin þurfa ekki að endurtaka ICF Credentialing exam. Fjölmargir félagsmenn eru að endurnýja aðild sína að ICF og viljum við eindregið hvetja þá sem eru í innlendu leiðinni að skoða aðild í gegnum ICF Global.  


Einingabærir fyrirlestrar og námskeið til endurmenntunar sem eru fríir fyrir félaga eru fjölmargir. Hægt er að skrá sig á viðburði inni á ICF Learning Portal með því að vera innskráð á eigið innra svæði. 


Vertu með í uppbyggingu til framtíðar!  Við vonum að þú munir endurnýja aðild þína og halda áfram að vera hluti af alþjóðlegu fagsamfélagi markþjálfunar. 


Stjórnin hlakkar til að sjá þig á næsta viðburði!140 views

Related Posts

See All

Comments


bottom of page