Greinina skrifaði Sigríður Ólafsdóttir PCC markþjálfi og mannauðsráðgjafi hjá Mögnum. Hún er menntuð sem mentormarkþjálfi (Mentor Coach Training) www.mognum.is
Mentormarkþjálfun er umfjöllunarefni þessa pistils en áður en þú lest lengra langar mig að biðja þig að staldra við, velta fyrir þér og svara spurningunni: Hvað er mentormarkþjálfun fyrir þér?
Kannski kemur upp í huga einhverra: „Tja er það ekki bara þetta box sem þarf að tikka í til að fá vottun?" Vangaveltur um að mentormarkþjálfun sé jafnvel óþarfi, við séum jú búin að læra markþjálfun og vitum alveg nóg um hvað við erum að gera en þegar við pælum í því þá vitum við jafnvel ekki alveg hvað þessi mentormarkþjálfun er. Svörin kannast ég við sem og önnur sem lýsa jú bara því sem hver og einn markþjálfi veit nú þegar frá þeim sjónarhóli þar sem hann er staddur. Þess vegna er svo gefandi og gaman fyrir mig sem mentormarkþjálfa hversu oft upplifun þeirra sem til mín koma er á þá leið að ferlið, framfarirnar og lærdómurinn hafi komið þeim á óvart og farið fram úr væntingum. Þetta þýðir auðvitað fyrst og fremst að markþjálfinn hefur tekið við áskorun, eflst og „stækkað sig" í ferlinu.
Vissulega þarf að tikka í þetta box „tilskilinn tímafjöldi hjá mentormarkþjálfa" til að sækja um vottanir hjá ICF, þar sem þetta er samofið því að sinna faglegri þróun markþjálfans. Mentormarkþjálfunin er þannig endurmenntun, endurstilling, skerping, sjálfskoðun og uppgötvunarferli með mentormarkþjálfa sér við hlið til hvatningar, stuðnings og ráðgjafar. Ferli sem kalla mætti ráðgefandi uppgötvunarferli fyrir markþjálfa - og alltaf, já alltaf og fyrst og fremst með hæfnisþættina og birtingarmynd þeirra að leiðarljósi.
Tilgangur mentormarkþjálfunar er að auka færni markþjálfa, samþætta hæfnisþætti ICF inn í nálgun og hæfni okkar sem markþjálfa, efla og dýpka skilning á hæfnisþáttum ICF og viðmiðum vottunar, undirbúa vottunarferli í takt við þarfir og markmið hvers og eins, og að fá endurgjöf í öruggu og styðjandi umhverfi.
Allt þetta gerum við með því að vinna með það sem markþjálfinn er nú þegar að gera með sínum viðskiptavinum, hlusta, ræða og rýna í hvernig hann beitir sjálfum sér sem „verkfærinu markþjálfi". Hann setur sér sín eigin markmið um vöxt og framfarir í samhengi við kröfur vottunarferlisins.
Ef við svo skoðum hæfnisþátt 2: Markþjálfunarviðhorf sem er skilgreint sem það að „hafa opið, fróðleiksmiðað og sveigjanlegt viðhorf með viðskiptavininn í öndvegi" þá er þar að finna ákveðna birtingarmynd þess að sækja mentormarkþjálfun.
Sjáum hvernig það endurspeglast í eftirfarandi undirþáttum; Er í stöðugri endurmenntun og þróun sem markþjálfi (2.2), endurmetur sjálfan sig og aðferðir sínar stöðugt til að styrkja sig sem markþjálfa (2.3) og leitar eftir hjálp frá utanaðkomandi aðilum ef nauðsyn krefur (2.8). Fallegt finnst ykkur ekki?
Þannig er mentormarkþjálfun virkt ferli markþálfunar og endurgjafar milli mentors og markþjálfa og byggist á virku samstarfi beggja aðila. Ferlið krefst líka ákveðins hugrekkis af hendi markþjálfans, hugrekkis til berskjöldunar og að vera tilbúinn til að rýna í sjálfan sig til gagns.
Á sama hátt verður mentormarkþjálfi að skapa traust og öruggt umhverfi, nota virka hlustun og spyrja spurninga en til viðbótar er hann einnig ráðgefandi. Hann má gefa ráð, miðla reynslu og þekkingu en þó alltaf á þann hátt að skapa rými til uppgötvana og skilnings fyrir markþjálfann, ekki til að ráðskast með eða mata hann á upplýsingum.
Það eru vissulega forréttindi að vera í hlutverki mentormarkþjálfa - að markþjálfi velji að treysta mér fyrir sér í sínu vottunarferli. Ein aukaverkun þessa hlutverks er svo að ég sjálf fæ stanslaus og stundum krefjandi tilefni til að rýna í sjálfa mig sem markþjálfa en mesti bónusinn er hvað þetta er skemmtilegt því að sannarlega er húmorinn notaður líka og alltaf stutt í hlátur og gleði - því gagn og gaman fara jú svo vel saman.