Starf stjórnandans er í senn krefjandi og ánægjulegt sem aldrei fyrr. Það getur þó verið einmanalegt þrátt fyrir góð kjör, ábyrgð og athyglina sem því fylgir. Stjórnir fyrirtækja og stjórnendur eru í auknu mæli farnir að nýta sér markþjálfun sér til styrkingar og álagslosunar.
Hvers vegna ættu stjórnendur að vinna með markþjálfa þegar stjórnendur fyrri tíma komust af án þeirra?
Stjórnendur í dag standa frammi fyrir stærri áskorunum en nokkru sinni fyrr. Markaðir þróast hraðar, tækninni fleygir fram, samkeppnin um hæft starfsfólk er hörð og fjármála- og lagaleg málefni eru flóknari en áður og svo má lengi telja. Stjórnendur sem telja sig ráða við allt á eigin spýtur eru mun líklegri til kulnunar (e. Burn-out) í starfi, taka verri ákvarðanir eða engar ákvarðanir yfir höfuð og missa þar af dýrmætum viðskiptatækifærum, helst verr á starfsfólki og arðsemin lætur á sér standa.
Starf stjórnandans er einstakt frá mörgum sjónarhornum: enginn innan fyrirtækisins þarf að heyra sannleikann oftar en fær hann um leið sjaldnast frá starfsfólki, enginn er jafn mikið í eldlínu gagnrýninnar þegar illa gengur og enginn annar stendur og fellur með ákvörðunum, jafnvel í vonlausum aðstæðum þar sem lágmörkun skaða er markmiðið.
Stjórnendur sína í auknu mæli einkenni kulnunar í starfi og skv. Harvard Business Review standast tveir af hverjum fimm nýjum forstjórum ekki kröfurnar sem til þeirra eru gerðar fyrstu 18 mánuðina í starfi. Fram kemur að svo virðst sem mistökin hafi ekkert að gera með hæfileika, þekkingu eða reynslu þeirra, heldur sjálfsmynd og stjórnunarstíl sem er úr takti við nútímann. Rannsóknir sýna að þegar einstaklingar takast á við nýja eða framandi stjórnunarstöðu, séu 40% líkur á því að þeir sýni frammistöðu sem veldur samstarfsfólki vonbrigðum. Eins hefur verið sýnt fram á að 82% nýrra stjórnenda heltast úr lestinni því þeim mistekst að byggja upp traust samband við undirmenn sína og meðstjórnendur.
Stjórnendur fá ekki þá endurgjöf sem þeir þurfa, sannleikann vantar og oftar en ekki treysta undirmenn og jafnvel stjórnarmenn sér ekki til hreinskiptinna samskipta. Það eitt og sér skýrir hluta af þeirri stöðu sem upp kemur. Önnur ástæða er að mikill munur er á því hvernig stjórnendur sjá sjálfa sig og þess hvernig aðrir sjá þá. Þetta er kallað sjálfs-meðvitund (e. self-awareness). Þegar mikill munur er á því hvernig stjórnandi sér sjálfan sig og því hvernig aðrir sjá hann myndast blind svæði sem geta staðið í vegi fyrir árangri. Því meiri munur, því meiri tregða til breytinga og starfsemin verður þyngri í vöfum. Í tilvikum þar sem mikill munur er á því hvernig stjórnendur sjá sig og hvernig aðrir sjá þá er að öllum líkindum erfitt að skapa jákvætt andrúmsloft byggt á trausti og heiðarlegum tjáskiptum.
Eitt einkenni góðra stjórnenda er að starfsfólk þeirra nær árangri. Þessir stjórnendur eru ákafir og helgaðir starfinu, heiðarlegir, áreiðanlegir og hugrakkir. Í krefjandi umhverfi nútímans þurfa metnaðarfullir stjórnendur trúnaðarmann, bandamann sem þeir geta treyst að segi þeim sannleikann og veiti þeim heiðarlega endurgjöf. Slíkt fá þeir sjaldnast frá starfsfólki og allt of sjaldan frá stjórnarmönnum. Stjórnendur þurfa því tækifæri til að spegla hugmyndir sínar í trúnaði og fullkomnu trausti án þess að hagsmunir þess sem speglar hafi áhrif á niðurstöðu. Markþjálfar eru leynivopn farsælla stjórnenda.