top of page
Writer's pictureicficeland

Markþjálfun á 5 mínútum


Afreksfólk á hinum ýmsu sviðum notar sér þjálfara, ekki bara á meðan það var að vinna að því að komast í afreksflokk, heldur líka áfram til að vera stöðugt að ná betri árangri.





















Á meðal stjórnenda í mörgum af Fortune500 fyrirtækjunum í Bandaríkjunum spyrja þeir ekki hvorn annan hvort þeir hafi markþjálfa heldur hver sé markþjálfi þeirra – svo sjálfsagt þykir það, enda þykir það að hafa markþjálfa vera merki um metnað, að viðkomandi ætli sér að ná meiri árangri en þegar hefur verið náð.


Það þarf því ekki að vera neitt að til að nýta sér markþjálfun, það segir bara til um að viðkomandi vilji verða betri.


Markþjálfun er þjálfun sem getur hjálpað fólki að ná auknum árangri, bæði í vinnu og einkalífi, hver svo sem sá árangur er sem stefnt er að.


Markþjálfun fer fram í gegnum ákveðna samtals- og spurningatækni þar sem markþjálfinn þjálfar einstaklinga til að finna sín eigin svör og leiðir til að komast þangað sem stefnt er að.

Markþjálfar hitta ýmist sína viðskiptavini augliti til auglitis eða tala við þá í gegnum síma eða Skype.


Úti í hinum stóra heima eru til stjórnendamarkþjálfar, lífsmarkþjálfar, eftirlaunaaldurs-markþjálfar, heilsu-markþjálfar og margt fleira en hér á Íslandi eru flestir markþjálfar annað hvort stjórnenda-markþjálfar eða lífs-markþjálfar.


Hér koma nokkrar spurningar og ráð um hvernig þú getur markþjálfað þig á 5 mínútum.

  1. Hvað er það sem þig langar eða hugur þinn stefnir til?  Ef þú fengir töfrasprota í hönd sem þú gætir sveiflað og þá yrði allt eins og þú vildir – hvað værir þú þá að gera, hvernig værir þú þá, þitt umhverfi, starf o.fl.?  Ekki takmarka þig með hugsunum um hvernig þú ætlir að láta þetta rætast – leyfðu þér að hugsa stórt og út fyrir öll box og þægindaramma – hvað er það sem þig raunverulega langar og hugur þinn stefnir til, bæði í vinnu og einkalífi?

  2. Þegar þú hefur svarað spurningu 1 getur verið gott að velta fyrir sér af hverju það er þetta sem þig langar til – hvaða þýðingu hefði það fyrir þig að láta þessar langanir, drauma og sýn  verða að raunveruleika?  Hversu mikið langar þig þetta?  Ertu tilbúin/-n til að fara í það ferðalag sem þarf til að komast í þessa stöðu?

  3. Hvaða leiðir getur þú farið á áfangastað?  Hvað hefur þú reynt áður og virkað vel fyrir þig?  Gætirðu reynt það aftur?  Hvaða styrkleika þín getur þú best nýtt á þessari leið þinni?  Hvernig mun þér líða þegar þú nærð á áfangastað?

  4. Hvað gæti hindrað þig í að komast á áfangastað?  Hvernig getur þú unnið þig í kringum hugsanlegar hindranir ef þær eru í formi peninga, tíma, annars fólks eða aðstæðna?  Ert þú kannski stærsta hindrunin?  Hvað er að halda aftur af þér? Hvað ætlar þú að gera í því?  Þú veist að þú ert fær um svo miklu meira en þú verður að trúa því og hætta að láta litlu leiðinlegu röddina í kollinum draga alltaf niður í þér (þú ert ekki ein/-n um að hafa þessa rödd!)

  5. Hvaða skref viltu taka núna?  Hvað væri mest um vert fyrir þig að gera núna?  Hvaða skref getur þú tekið núna strax til að færa þig nær takmarki þínu?  Hvað ætlar þú að gera þannig að þú þurfir ekki að hafa neina eftirsjá þegar kemur að sjötugsafmælinu þínu?

Kæri lesandi, þú lifir á tímum þar sem (nánast) allt er hægt, tækifærin eru óendanlega mörg og lífið er svo sannarlega fullt af tækifærum, byrjaðu strax að nýta þau!


Ef þú upplifir að lífið færi þér fleiri hindranir en tækifæri þá þarft þú að finna þínar leiðir framhjá þeim.


Reimdu því á þig hlaupaskóna og finndu þína leið að tækifærunum – ekki lenda í því að óska þess eftir ár að þú hefðir byrjað í dag, fleiri sjá eftir því sem þeir gerðu ekki en því sem þeir gerðu – ætlar þú að vera í þeim hópi?


134 views

Related Posts

See All
bottom of page