Greinina skrifaði Ásta Guðrún Guðbrandsdóttir MCC markþjálfi -
Inn kemur nemandi með signar axlir og dæsir þegar hann sest hjá mér í huggulegu herbergi þar sem ég hef aðstöðu hjá NÚ - Framsýn menntun. Í skólanum er ég innanhússmarkþjálfi, aðallega fyrir nemendur á unglingastigi en líka fyrir starfsmenn sem þess óska, og er þar með viðveru alla mánudaga.
Þetta er í fyrsta sinn sem nemandinn kemur til mín og ég byrja á að spyrja hvort hann viti af hverju hann er komin og hvað við ætlum að gera saman. Með öðru dæsi frá nemandanum kemur „nei”. Þá byrja ég á því að útskýra hvað markþjálfun er og kem með allskonar myndlíkingar og mælikvarða eins og „hvernig líður mér í dag? tölulegu mælistikuna". Því næst býð ég nemandanum að segja mér hvar hann geti staðsett sína líðan á þessari stiku, frá einum og upp í tíu og við ræðum það aðeins. Ég tala um að í markþjálfun sé hægt að ræða slíka hluti og finna út möguleg verkfæri til að halda sér í fimmunni eða ofar, því undir fimmunni gangi allt frekar hægt og erfiðlega - fimmann sé góður staður að vera á og jafnvel örlítið ofar. Svo teikna ég líka lífshjólið og spyr nemandann um þættina sem móta líf hans - fæ hann til að tala um sig og hvað hann geri svona fyrir utan skólann.
Allan þennan tíma sem ég ræði við nemandann er ég í „grunninum" eða A-hluta grunnhæfnisþátta markþjálfunar, að nota siðfræðina og markþjálfaviðhorf.
Einnig færi ég mig fljótt yfir í B-hluta: Að stofna til markþjálfasambands. Það geri ég með því að útskýra markþjálfun og hvaða umræðuefni væri hægt að taka fyrir eða búa til samning um og legg mikla áherslu á að byggja upp traust og öryggi nemandans með 100% markþjálfaviðveru.
Ég er að sjálfsögðu í C-hlutanum allan tímann líka með árangursrík tjáskipti þar sem ég beiti virkri hlustun og hjálpa nemandanum í einhverskonar vitundarsköpun, sem getur verið í formi þess að hann átti sig á því að það er hann sem ræður - er sinn eigin leiðtogi. – Það sé svo gott að vita hver maður er og hvað hægt er að gera til að efla sig frekar - að vakna upp og sjá: „Ó vá, það er ég sem get ákveðið í hvernig skapi ég vil vera en ekki einhver annar" o.fl í þeim dúr. Það er alveg ótrúlegt hversu marga er hægt að vekja á þennan hátt í fyrsta samtali.
Í lok samtalsins fer ég í D-hlutann þar sem ég hvet til lærdóms og vaxtar hjá nemandanum sjálfum, þannig að ég stuðli að aukinni sjálfsþekkingu. Það geri ég með lokaspurningunni „hvað tekur þú með þér frá þessu samtali?”... og það titrar í mér hjartað yfir svarinu sem ég fæ og ég hreinlega ELSKA þegar kemur eitthvað eins og „mér finnst ég þekkja mig aðeins betur”, „ég veit núna hvað markþjálfun er”, „ég finn að ég er jákvæðari en þegar ég mætti" eða „vá, get ég verið minn eigin leiðtogi?”. Ef ég get sáð þessum fræjum hjá nokkrum nemendum þá hef ég nært mitt eigið hjarta í leiðinni.
Þetta getur þú líka!
Í allra fyrsta tíma með nemenda er venjulega ekki hægt að fara í klassískt markþjálfunarsamtal. Ég myndi frekar kalla það „nemendamarkþjálfun” sem á sér stað því nemandi veit ekki ennþá alveg hvað markþjálfun er og ég þarf að byggja upp traust og trúverðugleika sem aldrei fyrr. Ég spyr hvort nemandinn sé eitthvað að hugsa til framtíðar og ef svo er leikum við okkur aðeins þar. Þetta getur verið breytilegt eftir því hvort nemandinn er í 8., 9. eða 10. bekk. Þarna er mikill þroskamunur á milli og því misjafnt hversu mikil markþjálfun fer fram í hverjum tíma, jafnvel þegar komið er í annan, þriðja og fjórða tíma en venjulega eru tvö samtöl fyrir áramót og tvö eftir áramót í skólanum.
Í öllum nemendamarkþjálfasamtölum er ég markþjálfi og beiti mér sem slíkur. Það er aðalmálið.
Ég tala um trúnaðinn og að við séum ekki að reyna að finna vandamál heldur frekar að gera gott betra.
Ég segi nemendunum að þau séu frábær eins og þau eru og að allir nemendur skólans komi til mín en ekki valdir einstaklingar.
Þegar þarna er komið við sögu er þeim flestum farið að líða mjög vel og farin að mala og mala. Mitt markmið með samtölunum við nemendur er að þeir upplifi að hafa vaxið eitthvað eftir samtalið hjá mér. – Að ég lyfti þeim upp, því það koma oft þungir og þreyttir unglingar til mín sem „vita nánast ekki neitt" en „ég veit ekki" er algengt svar hjá þessum elskum. Tilgangur markþjálfunarinnar er að sá fræjum um sjálfsrækt og hversu mikilvægt það er að byrja snemma á því og finna hvernig líðanin breytist innra með okkur þegar upplifunin er góð og hvernig hægt er að nálgast þessa líðan upp á eigin spýtur. Við kíkjum líka á tilfinningar eins og vanlíðan og óöryggi þegar þær koma upp og hvað er mögulega hægt að gera í þeim. Oft er mikil vanlíðan og þá spyr ég einfaldlega „hvernig myndi þér vilja líða?".
Ég hreinlega ELSKA að taka á móti nemendum í markþjálfun, blása í þau orku og lyfta þeim upp!
Comments