top of page

Lífsgleði sem hluti af áherslum

Haraldur Þorleifsson frumkvöðull, er einn af aðalfyrirlesurum Markþjálfunardagsins í ár og yfirskrift umræðuefnis hans er Function + Feeling. Harald þekkir orðið hvert mannsbarn, hann stofnaði Ueno sem keypt var af Twitter eins og frægt er orðið, rampar upp Ísland og var valinn manneskja ársins 2022.Þegar lesið er um Harald og skoðuð myndbönd af honum flytja fyrirlestra segist hann vera upptekinn af því að vinna að mannlega þætti tækninnar og þegar við spyrjum hann nánar út í það svarar hann:


,,Mér finnst að allt sem við gerum eigi að hafa tilgang annars er það bara einhver tilgangslaus krafa um að hanna kerfi, kerfi sem eru fín í sjálfu sér og ekkert athugavert við þau en þau eru bara kerfi. Ég vil hvetja fólk til að mastera hið mannlega við tæknina svo hún tengi okkur og bindi okkur traustum böndum”.

Vildi leysa vandamál

Hann var 11 ára gamall þegar móðir hans lést í slysi og segist hann hafa farið úr því að vera aktíf félagsvera í að vera einn með sjálfum sér. Hann lokaði sig af og spilaði tölvuleiki en smátt og smátt fór hann að nota tæknina til annars brúks, hannaði öpp og vefsíður og áttaði sig þá á að hann væri bara góður í að búa til ýmislegt sem fólk tengdi við. ,,Ég hellti mér út í þessa vinnu, var löngum stundum við tölvuna, heilu næturnar, helgarnar. Gat aldrei svarað því af hverju ég gerði það sem ég gerði. Ég bara vann að því að leysa vandamál, vildi vera hjálplegur svo fólk gæti notið þess sem ég gerði”.


Google tækifærið

Stóra tækifærið kom þegar hann fékk verkefni hjá Google, Santa Tracker. Hann setti saman alþjóðlegt teymi og aftur vann hann viðstöðulaust í marga mánuði að lausninni og þegar hún kom á markað sló hún í gegn og milljónir manna nýttu sér hana.

,,Öll þessi reynsla varð til þess að ég stofnaði Ueno þar sem við hönnum og hjálpum aðilum að gera góða hluti og gefa af sér. Við höfum tekið þátt í fjölda verkefna og stutt fólk sem alltaf hefur gefið okkur tilbaka”.


Stuðningur er drifkraftur Teymisvinna er honum hugleikin og segir hann það stærsta atriði hvers frumkvöðlafyrirtækis að ná saman rétta teyminu. Það hafi tekist hjá Ueno sem setti lífsgleðina sem hluta af áherslum sínum.


,,Það er mér mikilvægt að við öll nýtum tímann og njótum ekki bara vinnunnar heldur lífsins. Gott teymi er lykillinn að því og hef ég verið svo lánsamur að vinna með fólki sem gefur af sér, áttar sig á að vandamál eru til að leysa þau og að við erum öll í þessu saman. Stuðningur við fólk í hverju sem það kann að vera er minn drifkraftur og er ég þakklátur hve vel hefur gengið”.

Fyrirlesturinn ber yfirskriftina Function + Feeling. Þar mun Haraldur fara inn á lífsreynslu sína, gefa dæmisögur um það sem hafði áhrif á verkefnaval hans og hvernig það styður við sýn hans í dag. Þá ræðir hann um tengingar á milli fólks og tækni ásamt þeim tækifærunum sem þar liggja.


Markþjálfunardagurinn 2023 er 2. febrúar!


Ekki missa af þessum stærsta árlega viðburði markþjálfunar sem er fyrir leiðtoga, mannauðsfólk, markþjálfa og öll sem hafa þörf fyrir nýja nálgun og öðlast dýpri skilning á tengslum milli árangurs og blómstrandi mannauðs Miðasala er á tix.is.287 views

Related Posts

See All

Kommentare


bottom of page