top of page

Kraftur leystur úr læðingi

Davíð Gunnarsson framkvæmdastjóri Dohop kynntist markþjálfun þegar hann bjó í Bretlandi og áttaði sig á hvernig flestir eða allir geti notið góðs af henni. Hann ákvað því að bjóða upp á markþjálfun innan fyrirtækisins þegar færi gafst og fékk Kristrúnu Önnu Konráðsdóttur teymis- og ACC markþjálfa til liðs við Dohop.,,Dohop er ört vaxandi fyrirtæki og markviss teymis- og markþjálfun hefur hjálpað okkur á margan hátt, sérstaklega að takast á við vöxt og breytingar,” útskýrir Davíð.


,,Það eru áþreifanlegar breytingar og þá sérstaklega einhvers konar kraftur sem við höfum leyst úr læðingi. Starfsfólkið mætir öðruvísi og mun sterkara til leiks með hjálp Kristrúnar.”

Davíð segir hópinn hafa tekið áskorunum og breytingum fyrirtækisins vel en það sem hefur komið ánægjulega á óvart er hversu mikið fólk leitar til Kristrúnar varðandi aðstoð við breytingar og úrvinnslu áskoranna sem upp koma.

Hoppa inn í framtíðina


Kristrún segir að fólk komi til sín með mismunandi viðfangsefni. Stundum finnst fólki það til dæmis ekki blómstra í núverandi starfi. ,,Þá hoppum við oft inn í framtíðina og skoðum hvernig hún birtist ef allt rætist fyrir viðkomandi,” segir hún og bætir við ,,það gefur auga leið að ef við tökum varkár skref frá nútíðinni þá erum við aldrei að stefna þangað sem okkur langar í raun og veru."


Í teymisþjálfuninni segir hún að skapist rými til að ræða um annað en innihald vinnunar – viðfangsefni tímanna fara eftir þörfum hvers teymis, en alltaf tengist það því hvernig teymið getur náð meiri árangri og hækkað í gleðinni í leiðinni. Sem dæmi þá eru þeir nýttir í að æfa mikilvæga hæfni t.d. endurgjöf og hrós, hvernig á að taka erfiðar ákvarðanir, skerpa á sameiginlegum skilningi á mikilvægu málefni, tala um bleika fílinn í herberginu, ræða um hvað heldur aftur af árangri teymisins, ræða um styrkleika einstaklinganna og teymisins eða tala um hvað teymið gerir vel og hvernig það getur gert enn meira af því.

Davíð og Kristrún deila þeirri sýn að vilja sjá starfsfólkið dafna. ,,Flest ef ekki öll fyrirtæki gætu nýtt sér mark- & teymisþjálfun, sett metnaðarfull markmið og freistað þess að hafa jákvæð áhrif á starfsfólkið og þá fyrirtækið um leið."


„Það sem hvetur mig áfram í þessu er að allir geti litið til baka með gleði á tímann sinn hjá Dohop og hugsað hvernig sá tími var stundum erfiður en alltaf skemmtilegur. Ég vil líka gjarnan gera allt sem hægt er til þess að hjálpa fólki að vaxa, finna sitt ‘why’ og öðlast skýrari sýn á árangur í leik og starfi,” segir Davíð.

Árangur er mældur í öðru en krónum og aurum


Í erindi sínu á Markþjálfunardaginn 2023 ræða Davíð og Kristrún um tilraunir Dohop í teymis- og markþjálfun. Þar skoða þau hvernig þörf er á nýrri nálgun í átt að árangri fyrirtækja sem starfa í umhverfi hraða og óvissu. Þau segja þessa nálgun byggja á þeirri trú að blómstrandi fólk og teymi séu forsenda árangurs. Nálgunin gerir ríkar kröfur til þess að leiðtogar geti tekist á við óvissu, treyst ferlinu, gert tilraunir, aðlagast hratt og séð árangur í fleiru en krónum og aurum.


Fyrirlestur þeirra ber yfirskriftina Að rækta árangur í umhverfi óvissu og hraða og þar munu þau gefa ráðstefnugestum frekari innsýn í þessar spennandi tilraunir hjá Dohop.


Markþjálfunardagurinn 2023 er 2. febrúar!


Ekki missa af þessum stærsta árlega viðburði markþjálfunar sem er fyrir leiðtoga, mannauðsfólk, markþjálfa og öll sem hafa þörf fyrir nýja nálgun og öðlast dýpri skilning á tengslum milli árangurs og blómstrandi mannauðs Miðasala er á tix.is.

96 views

Related Posts

See All

Comments


bottom of page