top of page

Hvaða gildi hefur markþjálfun innan skólastofunnar?

Greinina skrifaði Jóna Björg Sætran, M.Ed., PCC markþjálfi - Námstækni ehf



Grunnaðferðafræði markþjálfunar er dýrmætt verkfæri sem ætti að vera aðgengilegt öllum sem vilja vinna að framúrskarandi skólastarfi. Það er eiginlega ekki hægt að taka eitthvað eitt verkfæri úr verkfærakistunni okkar, þau hafa hvert um sig þvílíkt gildi.

Því miður er það alltof algengt að börn séu þreytt, leið, kvíðin eða uppspennt þegar þau mæta í skólann og við slíkar aðstæður er takmarkað hve mikið þau geta tileinkað sér af þeirri kennslu sem á að fara fram í skólastofunni. Það er ekki nóg að kennarinn geti haldið uppi aga í kennslustund, kennarinn þarf að ná til nemenda sinna á persónulegan hátt og oft þarf að ná til margra nemenda í einu.


Djúpu, opnu og krefjandi spurningarnar geta oft orðið til þess að opna augu nemenda fyrir gildi námsins, en ekki síður fyrir því hvað afstaða þeirra til námsins hefur mikið að segja, til að nám fari fram.

Kennari, sem er næmur hlustandi og gerir sér far um virka hlustun, gefur nemendum sínum líka oft dýrmæta gjöf, því oft er það svo að allir heima eiga svo annríkt að barnið nær ekki að fá að tjá sig til hlítar. Þegar opnu, krefjandi og djúpu spurningarnar eru síðan notaðar sem innskot í virku hlustuninni, verður stundin enn dýrmætari því þannig getum við aukið innsýn barnsins og unglingsins í möguleikana sem oft eru þeim huldir, en eru þarna samt í möguleikavíddinni dýrmætu.


Erfið félagsleg samskipti hópsins er líka oft hægt að bæta með smá stýringu í gegnum aðferðafræðina. Fyrir all nokkrum árum var mér falin umsjón með nemendum í fimmta bekk, þar sem félagsleg samskipti voru ekki upp á sitt besta. Þá setti ég í gang tveggja vikna ferli sem ég kallaði „Betri samskipti - betri framkoma“. Markmiðið var að efla liðsanda bekkjarins í gegnum paravinnu. Einu sinni á dag í tvær vikur, ræddum við eitthvað ákveðið tengt samskiptum, félagslega færni, framkomu og vináttu. Með spurningatækninni góðu gekk vel að fá börnin í djúpar hugleiðingar um viðkomandi efni. Þetta tók aðeins 5 - 10 mínútur og í kjölfarið áttu nemendur að para sig með einhverjum sem þeir höfðu ekki unnið með áður. Er á leið urðu nemendur sem vildu alls ekki vinna saman, að láta undan og vinna saman. Öll verkefnin, sem áttu aðeins að taka 15 - 20 mínútur, byggðu á samskiptum og samvinnu beggja aðila. Eitt sinn átti parið að teikna sameiginlega mynd en fyrst þurfti að ræða saman, ákveða og skipuleggja. Klippimyndagerð, krossgáta, föndurgerð o.fl komu í kjölfarið. Eftir þessar tvær vikur höfðu samskiptin snarbatnað. Í kjölfarið var ákveðið að fara með verkefnið í fleiri árganga við skólann og í hvert sinn varð árangur góður. Þarna var aðferðafræði markþjálfunar nýtt sem innleiðing að aukinni félagslegri færni sem bætti samskipti og líðan nemenda.


Börnum sem líður vel er ekki tamt að stríða, hrekkja eða leggja í einelti. Barni þarf að líða vel í eigin skinni til að geta meðtekið nám og nýtt sér það við nýjar aðstæður.
Barn sem venst á að hugsa jákvæðar hugsanir á auðveldara með að finna eigin lausnir þegar erfiðleikar steðja að.

Aðferðafræði markþjálfunar opnar börnum og unglingum greiðari leiðir að því að þekkja styrkleika sína, að efla sig og styrkja, til að finna sínar eigin leiðir að ævintýrunum sem bíða þeirra í lífinu.


Blómstraðu í einkalífi og starfi! Njóttu þess að vera þú!

123 views

Related Posts

See All

Comentários


bottom of page