Eitt af forgangsverkum nýrrar stjórnar ICF Iceland er að skapa sterka einingu innan félagsins og treysta böndin á milli stjórnarinnar og félagsmanna. Forsendan fyrir því að svo verði er sterk og heilbrigð stjórn. Það hefur skapast einstaklega mikil samstaða milli stjórnarmeðlima. Þar ríkir vinátta, virðing fyrir faginu og einlægur vilji til að auka virði félagsaðildar.
Drifkrafturinn er gleði, fagvitund og atorkusemi.
Við í stjórninni erum líka í skýjunum yfir virkni og viðmóti félagsmanna. Það er alveg sama hvar á er litið, allsstaðar er okkur vel tekið og því sem við höfum upp á að bjóða, hvort sem það eru símtöl til félagsmanna, þátttaka og aðstoð á viðburðum, mæting á viðburði og margt fleira. Já, það er jákvæður tónninn en við erum svo sannarlega opin fyrir ábendingum og gagnrýni. Það er í mörg horn að líta hjá nýrri stjórn og við getum alltaf gert betur. Ekki hika við að heyra í okkur með því að senda tölvupóst á icficeland@icficeland.is.
Það er óhætt að segja að þessi önn hjá ICF Iceland hafi farið af stað með krafti. ICF Iceland hefur nú þegar haldið tvo viðburði. Báðir viðburðirnir voru einingabærir. Það er markmið stjórnar að allir viðburðir á vegum ICF Iceland séu einingabærir. Mætingin á báða viðburðina var framar vonum, bæði hjá þeim sem mættu á staðinn og hjá þeim sem voru að fylgjast með í gegnum streymi.
Á viðburðinum í ágúst fengum við að heyra reynslusögur af vottunarferlinu. Fyrst fengum við að heyra reynslusögur Arnórs Más og Ástu Guðrúnar af MCC vottunarferli þeirra og í kjölfarið voru margir félagsmenn sem tóku við „open mic” og deildu sinni vegferð að vottun. Viðburðurinn gaf 1.5.0 CCe og 1.0 Rd einingar.
Í september var svo ferðinni heitið til Akureyrar. Þar var mentor-markþjálfun í aðalhlutverki. Í Símey (Símenntunarstöð Eyjafjarðar) var bæði boðið upp á vinnustofu fyrir markþjálfa og viðburð með erindum mentor-markþjálfa. Það var einstök upplifun fyrir félagsmenn að fá að hlusta á og rýna í PCC upptöku af samtali Ölmu J. Árnadóttur við markþega. Það mátti heyra saumnál detta í salnum þegar upptakan var í gangi, sterk nærvera og djúp þögn. Þarna fengum við að drekka í okkur tæra visku markþjálfunar. Takk Alma fyrir þessa stóru gjöf. Sigríður Ólafsdóttir PCC markþjálfi og Arnór Már MCC markþjálfi voru svo með áhugaverð erindi um mentor-markþjálfun. Viðburðurinn gaf 2.0 CCe einingar.
Næsti viðburður ICF Iceland verður haldinn þann 20. október í Heilsuklasanum í Reykjavík. Þá fáum við áhugaverða og gagnlega fræðslu frá David Lynch og Ástu Guðrúnu um störf siðanefndar ICF Iceland og siðamál. Einnig fáum við fræðslu frá stjórnarmeðlimum ICF Iceland þeim Rakel Baldursdóttur og Ölmu J. Árnadóttur um virði þess að vera í ICF Global og ICF Iceland. Skráning fer fram á www.icficeland.is / Facebook event
Arnór Már og Rakel voru fulltrúar ICF Iceland á Nordic Forum sem fór fram í Stokkhólmi þann 29. september síðastliðinn. Þau áttu góðan fund með stjórnarmönnum í ICF Global og fulltrúum frá öllum ICF Chapters á Norðurlöndunum. Svo fengu þau mjög gagnlega fræðslu um virði félagsaðildar og um það sem er framundan hjá ICF Global. Þau munu kynna afraksturinn á næstunni.
Það er margt framundan hjá ICF Iceland. Viðburðir verða auglýstir nánar fljótlega og birtir á heimasíðu ICF Iceland, en hér verður stiklað á stóru:
7. október 2022 - ICF Iceland verður með kynningarbás á Mannauðsdaginn sem haldin verður í Hörpu.
20. október 2022 - Vinnustofa um siðamál og kynning á virði félagsaðildar.
3. nóvember - Viðburður Markþjálfahjartans á netinu um skólamál.
16. nóvember 2022 - Fyrirlestrar um mismunandi aðferðir í markþjálfun: Teymismarkþjálfun, kynlífsmarkþjálfun, nemendamarkþjálfun og ADHD markþjálfun.
12. desember - 16 ára afmælishúllumhæ ICF Iceland!
12. janúar 2023 - Fyrirlestrar um sjónarhorn leiðbeinenda í markþjálfanámi. Hvað getum við lært af þeim?
Í byrjun febrúar 2023 - Markþjálfunardagurinn.
Þann 1. nóvember verða gerðar breytingar á fyrirkomulagi á félagsaðild. Hingað til hefur gildi félagsaðildar verið frá apríl til apríl ár hvert, þannig að ef þú gerist félagi í ICF fyrir 1. nóvember 2022 þá gildir aðildin fram í apríl 2023. Þann 1. nóvember 2022 verður hinsvegar sú breyting á að félagsaðildin gildir í ár frá þeim degi sem þú gerist félagi. Það þýðir að ef þú gerist félagi 3. nóvember 2022 þá gildir aðildin til lok nóvembermánaðar 2023.
Við hlökkum til að sjá þig á næsta viðburði ICF Iceland!
Kærleikur og friður,
Agnes Barkardóttir, formaður
Arnór Már Másson, varaformaður
Alma J. Árnadóttir, ritari
Rakel Baldursdóttir, gjaldkeri
Comentarios