top of page
Writer's pictureicficeland

Brúin sem var reist með einum fingri

Skrifað af Unni Valborgu Hilmarsdóttur, stjórnendamarkþjálfa. Birt á mbl.is


Það var árið 1883 sem verkfræðingurinn John Roebling fékk hugmynd sem samtíðarfólki hans þótti brjálæðisleg og vonlaust verk að vinna.



Eitthvað varð til þess að Roebling gat ekki ýtt þessari hugmynd úr huga sér þrátt fyrir úrölur um að það væri vonlaust að framkvæma hana, það bara væri ekki hægt, ekkert þessu líkt hafði verið gert áður. Eftir miklar umræður tókst honum að sannfæra son sinn Washington, nýútskrifaðan verkfræðing, um að verkið væri vinnandi. Saman lögðu þeir feðgar af stað í hina „vonlausu vegferð“ að mati annarra og hófust handa við að byggja Brooklyn brúna í New York.Verkið fór vel af stað en eftir aðeins nokkurra mánaða vinnu lést John Roebling í kjölfar áverka eftir vinnuslys. Sonur hans Washington slasaðist, hlaut varanlegan heilaskaða sem gerði það að verkum að hann gat hvorki gengið, né talað.


Óhappið var eins og olía á eld úrtölumanna og kvenna sem endurtóku svartsýnisraus sitt í allra eyru: „ég sagði þetta allan tímann", „bilaðir menn að elta skýjaborgir“, „það er glapræði að eltast við svona draumóra“. Og miðað við ástandið var ekki útlit fyrir að byggingu brúarinnar yrði fram haldið. Enginn vissi hvernig átti að byggja hana annar en þeir feðgar. Washington reyndi hvað hann gat að koma verkinu yfir á vini sína úr stétt verkfræðinga en allt kom fyrir ekki. Enginn vildi taka verkið að sér. Sýn þeirra feðga var svo langt á undan þeirra samtíð að enginn sá fyrir sér að hægt væri að koma brúnni upp.


Einn dag lá Washington í sjúkrarúmi sínu og vorgolan feykti gardínunni frá glugganum svo hann sá glitta í heiðan himinn og trjátoppa úti við. Hann tók þessari fallegu sýn sem merki um að hann ætti ekki að gefast upp á byggingu brúarinnar þó svo að hann gæti hvorki gengið né talað. Allt sem hann gat var að hreyfa einn fingur – en hann einsetti sér þarna að nýta sér þann fingur til fulls og þróaði merkjakerfi sem hann og kona hans notuðu til að eiga samskipti. Konan hans, Emily, varð því tenging hans við umheiminn og hún tók yfir verkstjórn yfir byggingu brúarinnar og flutti skilaboð Wasingthons til verkfræðinga og verktaka. Í þau þrettán ár sem bygging brúarinar tók var það fingur Washingtons og túlkun konu hans á skilaboðunum sem gerði sýn þeirra feðga að veruleika. Brúin var vígð 1883 og var lengi vel stærsta brú sinnar tegundar í heiminum. Enn þann dag í dag er hún eitt glæsilegasta kennimerki stóra eplisins, stórvirki í byggingasögunni.


Brúin er ekki bara kennimerki borgarinnar og stórvirki í byggingasögunni. Hún er minnisvarð um mátt skýrrar framtíðarsýnar, þrautseigju, útsjónarsemi og síðast en ekki síst þess að gefast ekki upp. Hún minnir okkur á að hversu stór sem hindrunin fyrir framan okkur á leið okkar að markinu er, þá má alltaf finna leið yfir eða framhjá. Hindranirnar sem við stöndum frammi fyrir eru sem betur fer fæstar eins stórar og miklar og hindrun Washingtons en engu að síður látum við þær standa í vegi fyrir því að draumar okkar rætist. Þrá hans eftir brúnni var hindruninni yfirsterkari.


Fyrst hægt er að reisa brú með einum fingri...Hvaða hindrunum þarft þú að ryðja úr vegi í dag til að færast nær þinni framtíðarsýn?


16 views

Related Posts

See All
bottom of page