Greinina skrifaði Helga Jóhanna Oddsdóttir, markþjálfi og mannauðsráðgjafi
Janúar er oft tími endurnýjunar í lífi okkar og starfi. Nýjar áætlanir taka gildi og kappið er mikið. Margir kjósa að setja sér markmið í upphafi árs og stefna hátt og móta sér framtíðarsýn.
Markmið eru endurnýjun í sjálfu sér. Þau gefa til kynna þörf okkar fyrir breytingar og vilja til að gera hlutina öðruvísi. Markmið sem virka best eru jákvætt orðuð t.d. “ég ætla að skerpa fókusinn” í stað “ég ætla að hætta að vera óskipulagður” og “ég ætla að dreifa verkefnum betur” í stað “ég ætla að hætta að gera allt sjálf(ur)”. Með því að orða markmiðin á jákvæðan hátt erum við að draga athyglina að því góða, því sem vekur með okkur tilfinningu um eitthvað betra, aukin gæði, hvort sem er í einkalífinu eða starfi. Hættan felst í því að orða markmiðin á neikvæðan hátt. Það er algeng gryfja sem fólk fellur í þar sem hvatinn til breytinga liggur jú í því að við viljum hætta einhverju eða færast frá því sem ekki skilar árangri.
Fyrsta skrefið er að umorða markmiðið og setja fram í því þá niðurstöðu sem við viljum ná á jákvæðan hátt sbr. “ég ætla að skerpa fókusinn”. Þannig erum við þegar lögð af stað með viljann að vopni og niðurstöðuna í sjónmáli.
Næsta skref er tengt því fyrra og það er að líta á markmiðið og þau skref sem tekin eru sem gæðaviðbót við líf og starf. Það að bæta inn venjum og aðgerðum sem virka gerir það að verkum að minna pláss er eftir fyrir það sem ekki virkar. Þannig færum við athyglina smám saman frá því sem ekki virkar yfir á það sem virkar.
Mjög áhugaverðar rannsóknir hafa verið gerðar á heilastarfseminni og tengslum hennar við gæði í ákvarðanatöku. Þessar rannsóknir sýna m.a. að þegar við mætum hindrunum og ógnunum, hættum við að nýta þá hluta heilans sem finna skynsamar lausnir og förum í varnarstöðu sem veldur því að við tökum rangar ákvarðanir og lengjum leiðina að niðurstöðunni svo um munar. Með því að vera meðvitaður um að umorða hugsanir sínar yfir á jákvæðan hátt getum við tryggt að við séum betur í stakk búin til að taka ákvarðanir sem virkilega gagnast okkur og koma í veg fyrir að við gefumst upp.
Ég hvet ykkur sem þetta lesið til að prófa og ekki síst til að leita til markþjálfa. Markþjálfinn getur komið auga á þær hindranir sem felast í sýn okkar á verkefni hvers dags og þar með talin markmiðin. Hindarnirnar eru oftar en ekki huglægar og gera það að verkum að við náum ekki skýrri sýn á það sem við viljum og hvaða leiðir eru færar.
Megi árið 2014 verða þitt besta ár hingað til!
Greinina skrifaði Helga Jóhanna Oddsdóttir, markþjálfi og mannauðsráðgjafi