Greinina skrifaði Sigrún Jónsdóttir ADHD markþjálfi hjá Míró -
ADHD markþjálfun fer fram með uppbyggilegum samtölum þar sem unnið er með tiltekinn tilgang eða þema í hvert sinn. Markmiðið er að einstaklingurinn skilji betur hvernig ADHD hefur áhrif á líf hans og hvernig hann getur þjálfað upp færni og aðferðir til að öðlast fyllra og gleðilegra líf.
Í ADHD markþjálfun er unnið með einstaklingi til að auka færni hans í þeim þáttum sem hafa haft truflandi áhrif tengt einkennum ADHD.
Markmiðið er að einstaklingurinn komi auga á styrkleika sína og yfirstígi hindranir og styrki þannig eigin sjálfsmynd. Unnið er með forgangsröðun og aukna meðvitund um þætti er lúta að daglegu lífi. Færniþjálfun hjálpar einstaklingnum að takast á við og ná betri stjórn á eigin lífi.
Ávinningur ADHD markþjálfunar er meðal annars eftirfarandi:
Aukinn skilningur á birtingarmyndum ADHD
Bættur skilningur á eigin líðan
Betri sjálfsmynd og sjálfsvirðing
Leiðir til að koma auga á eigin styrkleika
Aukin hæfni til að forgangsraða og ljúka verkefnum
Bætt samskipti við fjölskyldu, vini og samstarfsfólk
Meiri gleði, sátt og samkennd í daglegu lífi
Aukin færni við að setja sér og öðrum mörk
Í viðurkenndri ADHD markþjálfun er unnið út frá aðferðafræði og siðfræði ADHD markþjálfunar og grunnfærnisþáttum og siðareglum ICF.
Comments