Í þessari grein munu Ásta Guðrún Guðbrandsdóttir MCC og David Lynch PCC vottaðir markþjálfar, sem skipa siðanefnd ICF Iceland, stikla á stóru um eina af stoðum fagfélagsins: Siðareglurnar og skoða hvers vegna þær eru svo dýrmætar.
ICF (International Coaching Federation) eru stærstu óháðu fagsamtök markþjálfa í heiminum. Sérstaða samtakanna felst í heildrænni nálgun á aðferðafræði markþjálfunar sem byggir á þremur stoðum sem hér eru upp taldar:
Grunnfærnisþættir sem eru átta talsins
Siðareglur sem eru 28 og byggjast á fimm meginþáttum
Gildin: Fagmennska - Samvinna - Mannauður - Jafnrétti (Professionalism - Collaboration - Humanity - Equity)
Með þessum þremur stoðum hefur skapast leiðbeinandi rammi utan um siðferðileg og fagleg störf markþjálfa til að styðjast við og er sérstaklega verðmætur þar sem markþjálfun sem faggrein hefur ekki hlotið lögverndun í tengslum við starfsheiti.
Ef þú spyrð þig núna hversu vel þú þekkir siðareglur ICF, hverju myndirðu svara?
Í janúar 2020 voru siðareglurnar uppfærðar, vissirðu það?
Ert þú sem markþjálfi að endurspegla og sýna grunngildin sem siðareglurnar eru byggðar á í öllum samskiptum við þína viðskiptavini?
Siðareglunum 28 er skipt niður í fjóra efnishluta:
Ábyrgð gagnvart viðskiptavinum
Ábyrgð á framkvæmd og frammistöðu
Ábyrgð á fagmennsku
Ábyrgð gagnvart samfélaginu
Efnishlutarnir fjórir hjálpa markþjálfum við að setja hverja reglu í rétt samhengi. Ef einhver af siðareglunum 28 hljómar framandi fyrir þig sem markþjálfa væri gott að eiga um hana samtal. Þér er ávallt velkomið að hafa samband beint við siðanefnd ICF Iceland á netfangið ethics@icficeland.is. Það er nefnilega lykilatriði að skilja reglurnar til hlítar til að geta haft þær í heiðri og farið eftir þeim í öllum aðstæðum.
Vitneskja frá ICF fagdeildum á heimsvísu benda til þess að fjöldi markþjálfa eigi erfitt með að mynda samning við viðskiptavin í upphafi. Þá kemur fyrsti efnishlutinn til hjálpar þar sem fyrstu 13 reglurnar snúa alfarið að ábyrgð gagnvart viðskiptavinum og geta auðveldað fyrstu skrefin að farsælu markþjálfunarsambandi.
Regla nr. 20 í efnishluta þrjú er einnig afar mikilvæg og líklega sú sem blasir oftast við að ekki er virt. Það er sjaldnast viljandi gert heldur líklegast tilkomið af þekkingarskorti. Reglan felur í sér að ekki er með neinu móti löglegt að veita villandi upplýsingar um ICF námsviðurkenningar eða gefa til kynna vottunarstig sem markþjálfi hefur ekki öðlast eða er ekki með virka endurvottun á, hvort sem er í auglýsingum eða á öðrum opinberum vettvangi. Fram hefur komið hjá mörgum ICF fagdeildum að þessari lögvernduðu reglu sé ekki alltaf fylgt.
Siðanefnd ICF er ætlað að halda tvo viðburði á hverju starfsári sínu til að halda uppi umræðu og fræða félagsmenn um siðamál. Fyrri viðburðurinn hjá núverandi siðanefnd er haldinn þann 20. október frá kl 17.00-19.00 í Heilsuklasanum í Reykjavík þar sem farið verður yfir tilgang og markmið nefndarinnar ásamt vinnustofu í formi „Case Study”. Í vinnustofunni verða lögð fram sýnidæmi um brot á siðareglum sem þátttakendur vinna með í hópum. Í lokin munu vinnuhóparnir svo kynna sínar niðurstöður. Það er því líflegur og skemmtilegur eftirmiðdagur í vændum.
Langar þig að rifja upp siðareglurnar og hitta aðra markþjálfa sem vilja halda sér í góðu formi?
Það er svo dýrmætt að hitta starfsfélaga sína og ræða málin - þvílíkur fjársjóður sem öðlast má með slíkum samverustundum. Skráning á ofangreindan viðburð sem ber yfirskriftina Siðamál ICF og virði félagsaðildar fer fram hér
Siðareglurnar halda uppi heilindum fagsins okkar - vertu með í markþjálfaliðinu!