top of page

Ég er steinhætt(ur) að strengja áramótaheit – þau klikka einhvernveginn alltaf!!!

Skrifað af Unni Valborgu Hilmarsdóttur, stjórnendamarkþjálfa


Áramótin eru tími markmiðasetningar og áheita. Ert þú ein(n) af þeim sem strengir áramótaheit eða ertu steinhætt(ur) því af því að þau ganga aldrei eftir?„Þú getur náð öllum markmiðum þínum ef þú vinnur staðfastlega að því.“ Sagði Cha Sa-Soon, 68 ára gömul kona frá Suður Kóreu sem náði skriflegu bílprófi í landi sínu eftir 950 tilraunir.


Þegar ég las um Cha Sa-Soon velti ég því fyrir mér hvort henni hefði aldrei dottið í hug að gefast upp. Líklega hefur það hvarflað að henni. Spurningin er þá hvenær. Ætli það hafi verið eftir 372 tilraunir, eða kannski eftir 789 tilraunir. Skiptir kannski ekki öllu. Það sem skiptir mestu máli er að hún gafst ekki upp og á endanum náði hún markmiði sínu. Hennar markmið breytir kannski ekki heimssögunni en markmið Edisons þegar hann vann að ljósaperunni átti eftir að breyta heimssögunni. Sagan segir að það hafi tekið hann 3000 tilraunir að finna upp ljósaperuna. Það er erfitt að ímynda sér hvað hefði gerst ef hann hefði gefist upp eftir 2798 tilraunir! Þegar hann var spurður út í þetta erfiði kom berlega í ljós hvers vegna hann gafst ekki upp eftir allar þessar misheppnðu tilraunir: „Mér mistókst ekki 3000 sinnum heldur fann ég 3000 leiðir til að lata ljósaperu virka EKKI.“


Viðhorf Edisons er það viðhorf sem við verðum að tileinka okkur til að ná árangri í atlögu okkar að þeim markmiðum sem við setjum okkur. Okkur á eftir að mistakast en það er hvernig við tökumst á við þessi mistök sem sker úr um hvort við náum árangri eða gefumst upp.


Hversu knýjandi eru þín markmið?


Mestu máli skiptir að sýn okkar sé eins knýjandi og mögulegt er til að minnka líkurnar á því að við gefumst upp. Hvernig er þitt viðhorf gagnvart þeim markmiðum sem þú hefur sett þér. Hversu knýjandi eru þau? Af hverju viltu ná þessum markmiðum? Hvað breytist þegar þú hefur náð þeim? Er þetta eitthvað sem skiptir þig verulegu máli?


Ef svörin við þessum spurningum fá þig til að iða í skinninu við að hefjast handa við að vinna að markmiðinu eru meiri líkur á að þú náir árangri. Þegar niðurstaðan er knýjandi eru meiri líkur á að við höfum hana í huga þegar hugsanir um að gefast upp sækja á okkur. Og trúðu mér, þær hugsanir eiga eftir að sækja á. Hversu mörg áramótaheit falla ekki í gleymskunnar dá stuttu eftir að þau eru strengd? Sagt er að 15. janúar sé sú dagsetning sem flestir eru búnir að gefast upp á áramótaheitum sínum. Þrautsegjan er því varla mikil. Er það furða að algengasta svarið við spurningunni „strengdir þú áramótaheit“ sé „nei ég er alveg steinhætt(ur) því, þau klikka einhvernveginn alltaf“. Af því að þau klikka alltaf hugsar fólk með sér að það sé  betra að spara sér þau mistök með því að sleppa því alfarið að setja sér markmið. Þar liggur raunverulegi vandinn, hræðslan við að mistakast verður ávinningnum yfirsterkari .


Með því að setja okkur ekki markmið, hvort sem þau eru á formi áramótaheita eða annarskonar formi, erum við að ræna okkur möguleikanum á að ná enn meiri árangri.

Líf án markmiða er eins og skip án áfangastaðar. – Óþekktur höfundur28 views

Related Posts

See All

Comments


bottom of page