• Blog >
  • Hugleiðingar markþjálfa um orsök og afleiðingu
RSS Feed

Hugleiðingar markþjálfa um orsök og afleiðingu

Þeir sem ná árangri vita hvað þeir vilja og færast markvisst nær því sem þeir þrá og vilja á meðan hinir reyna að komast í burtu frá því sem þeir vilja ekki.

Rannsóknir hafa sýnt fram á það að þeir sem setja sér markmið að staðaldri eru ekki endilega hamingjusamari en þeir sem ekki setja sér markmið – nema þeir hafi skoðað bæði hug sinn og hjarta og fundið raunverulegar, hvetjandi og drífandi ástæður fyrir því að ná markmiðunum sínum. Það má vel vera að þeir hafi hærri tekjur, nái lengra í starfi, fari í dýrari sumarfrí og njóti meiri veraldlegra gæða. Það hefur einfaldlega mjög lítið með hamingju eða lífsfyllingu að gera.

Reynsla mín hefur sýnt mér að þeir sem koma til mín í markþjálfun falla yfirleitt í einn eða tvo af eftirtöldum flokkum. Stundum eiga allir flokkarnir við en það er frekar sjaldgæft.

Fyrst má nefna hópinn sem kemur í leit að veraldlegum gæðum. Þeir sem í hann falla eru oftar en ekki að reyna að fylla í tómarúm hjartans. Hjá þeim virðist oft vera sterk fylgni á milli mikillar velgengni í starfi og vansældar í samskiptum við fjölskyldu og vini, sértaklega hjá þeim sem leggja ríka áherslu á framabrautina og eru ekki komnir lengra en svo í þroska að þeir máta sjálfsvitundina ennþá nánast eingöngu við hið ytra. Sami hópur telur sér oft trú um að uppskriftin að auknum árangri felist í því að gera meira af því sama, betur, oftar og hraðar.

Annar hópur er nánast andstæða þessa fyrstnefnda hóps. Þeir sem þar eru leggja ofuráherslu á tilfinningar, vináttu, samskipti og samhljóm. Þessi hópur er oft með hausinn í sandinum hvað varðar hinar hörðu staðreyndir lífsins og láta oft tilfinningar þvælast fyrir sér þegar kemur að því að horfast í augu við það sem er. Sérstaklega þegar þarf að taka ákvarðanir sem snerta einnig aðra en þá sjálfa.

Þriðji hópurinn er svolítið úti um allt og alls staðar. Innan hans eru þeir sem byrja á mörgu en klára fátt. Það sem oft einkennir þennan hóp er að innan hans eru einstaklingar með fjölmargar hugmyndir um framtíðina en þeir eiga erfitt með að forgangsraða, ná utan um tilveruna og halda athyglinni á því sem mun skila þeim árangri sem þeir sækjast eftir.

Fjórði hópurinn er andstæða hins þriðja. Þeir einstaklingar sem honum tilheyra eru svo skipulagðir, áhættufælnir og formfastir að þeir eiga í verulegum vandræðum með að hugsa út fyrir kassann. Þeir eiga reyndar mjög auðvelt með að skipuleggja verkefnin sín en um leið og eitthvað óvænt ber að garði eiga þeir erfitt með að takast á við það með öðrum tólum en þeim sem þeir hafa reynslu af því að nota.

Sannleikurinn er sá að það skiptir litlu máli hvað leiðir þig á fund markþjálfans eða í hvaða hópi þú ert. Það sem raunverulega skiptir máli er að þú komir á þínum forsendum, leggir spilin á borðið og egóið til hliðar

Ef það er eitthvað sem hefur komið mér á óvart í starfi mínu sem markþjálfi þá er það hversu oft fólk leitar til mín með ákveðin mál og kemst svo að því þegar til kastanna kemur að rót vandans liggur oft allt annars staðar en það hafði talið sér trú um.

Sem dæmi má nefna konu sem vildi bæta samskipti sín við samstarfsfólk sitt en komst að því að vandinn lá í því að hún kunni ekki að treysta öðru fólki. Hún var haldin fullkomnunaráráttu sem kom í veg fyrir að hún næði að mynda heilbrigð tengsl við þá sem hún vann með. Hún sá það mjög skýrt þegar hún hafði fengið rými til að skoða eigin hegðun að vandamálið var alfarið hennar og hafði ekkert með samstarfsfólk hennar að gera.

Fullkomnunarárátta hennar gerði það að verkum að hún skipti sér stöðugt af því hvernig aðrir unnu og gengu frá verkum sínum. Í hennar huga var hún bara að aðstoða vinnufélaga sína í að gera betur en í þeirra huga var hún óþolandi afskiptasöm og gagnrýnin.

Annað lítið dæmi er af manni sem taldi einu lausnina til að öðlast fjárhagslegt sjálfstæði liggja í því að vinna meira. Þegar málin voru krufin með áleitnum spurningum komst hann að því að lausn vanda hans fólst í því að draga úr útgjöldum fremur en að auka innkomu. Hann vann oft myrkranna á milli og þegar hann hugleiddi hvað lægi á bak við allar þessar vinnustundir áttaði hann sig á því að hann sóttist fyrst og fremst eftir viðurkenningu fólksins í kringum sig, fólks sem skipti hann í rauninni ekki svo miklu máli. Hann verðlaunaði sjálfan sig svo yfirleitt fyrir dugnaðinn með því að kaupa dauða hluti sem veittu honum sjaldnast sérstaka ánægju.

Hér ber allt að sama brunni; það sem við teljum vera orsök reynist oft afleiðing einhvers sem við höfum ekki komið auga á – ennþá.

Skilaboðin með þessum hugleiðingum eru þessi. Þegar fólk skoðar sjálft sig og stöðuna sem það er í sér það ekki heildarmyndina. Viðhorf fólks til eigin tilvistar er litað af aðstæðum og tilfinningum sem eru ráðandi hverju sinni.

Góður markþjálfi hjálpar þér fordómalaust að horfast í augu við raunveruleikann eins og hann er og að öðlast skýrari sýn á þann veruleika sem þú vilt skapa þér í framtíðinni.

Ingvar Jónsson, PCC markþjálfi

Please feel free to contact me!

LOCATION

Find me on the map

Office Hours

Primary

Monday:

9:00 am-5:00 pm

Tuesday:

9:00 am-5:00 pm

Wednesday:

9:00 am-5:00 pm

Thursday:

9:00 am-5:00 pm

Friday:

9:00 am-5:00 pm

Saturday:

Closed

Sunday:

Closed